Fram í heiðanna ró
BJÓÓÓ!!! SVO VÖMBIN VERÐI STÓÓÓ!!!


föstudagur, október 29, 2004  

Guðrún birna skrifar um vonda reynslu af Eymundsson. Bangsapabbi er með smá innlegg í þá umræðu. Síðast þegar ég fór í Eymundsson þá keypti ég mér einhverja bók og var síðan eitthvað að skoða í búðinni og þegar ég var á leiðinni út, læddist einhver afgreiðsludama á eftir mér og spurði hátt og skýrt þannig að allir í búðinni sneru sér við til að fylgjast með: "ertu búinn að borga fyrir þetta?" "Já, reyndar." svaraði þá bangsapabbi."Þú villt kannski sýna mér kvittun.""já, það er sjálfsagt" Svo leitaði ég að veskinu undir ströngu augnaráði afgreiðsludömunnar og flestra annarra í búðinni og þegar ég loksins reiddi fram snefilinn, leit hún rannsakandi á hann, sagði síðan eitt lítið "já" og sneri sér síðan við til að sinna öðrum störfum. Ekkert fyrirgefðu eða afsakið á þeim bænum.

posted by Hjalti | 1:31 e.h.


laugardagur, október 09, 2004  

Úff! Nú er bangsapabbi loksins orðinn bangsalegur aftur eftir að hafa verið svolítið hamstralegur í nokkra daga.
Frá síðustu færslu hefur íbúafjöldinn í bangsaholunni tvöfaldast. Nei, það er nú ekki svo að við séum komin með tvíbura heldur er systir bangsapabba flutt inn með lítinn voffa með sér.

posted by Hjalti | 3:06 e.h.


þriðjudagur, september 21, 2004  

DÓMSDAGUR NÁLGAST!!!
Ég vona að vikan verði lengi að líða því henni mun ljúka með skelfilegum hætti. Tannlæknaferðin um daginn leiddi það í ljós að það þarf að taka endajaxlana úr bangsapabba og það verur gert á föstudaginn næsta klukkan þrjú. Ekki mikil tilhlökkun sem ríkir vegna þessa.

posted by Hjalti | 5:51 e.h.


mánudagur, september 13, 2004  

Mánudagar eru sérlega krefjandi dagar í vetur og af þeim er mánudagurinn í dag er sérstaklega krefjandi. Hvort skyldi vera verra, Tölfræði 2 eða FERÐ TIL TANNLÆKNIS?

Er búinn að uppgötva snilldaríþrótt fyrir tilstuðlan frænda míns. Umrædd íþrótt heitir skvass og verður leikin einu sinni í viku í vetur.

posted by Hjalti | 11:32 f.h.


föstudagur, september 10, 2004  

Krakkar mínir komiði sæl,
Ég er BANGSAPABBI!!!!!

Nú er bangsapabbi búinn að ná sér í aukavinnu með náminu.
Hann er farinn að kenna forfallakennslu í einum af grunnskólum höfuðborgarsvæðisins og er einmitt að fara að mæta í fjórða skiptið núna á eftir.
í tímunum getur verið mikið fjör. Sérstaklega í tónmennt. Það var einmitt í tónmenntatíma sem eftirfarandi samræður áttu sér stað:

Nemandi: Heyrðu Hjalti kennari!!
Bangsapabbi: Já vinur.
Nemandi: Af hverju ert þú svona sköllóttur?
Bangsapabbi: Ehhh, ég veit það ekki.
Annar nemandi: Hvað meinarðu, hann er ekkert sköllóttur.
Nemandi: Jú, hann er sköllóttur!
Bangsapabbi: Eigum við ekki bara að fara í einhvern leik?

posted by Hjalti | 9:22 f.h.


föstudagur, júlí 16, 2004  

Nú er bangsapabbi búinn að kveðja heiðardalinn en þar átti hann yndislegan tíma með gömlum vinum.  Þar voru unnin ýmis þrekvirki en efst á blaði er tvímælalaust brennivínsdrykkju- og síldarátskeppni!!!!!  Þetta er mjög vafasöm keppni en þó bráðnauðsynleg hafi menn einhvern áhuga á því að bera nafnbótina KARLMAÐUR!!!! Þeir sem ekki þora að taka þátt mega velja milli þess að vera kallaðir kvenmenn eða verkfræðingar.
 

posted by Hjalti | 11:02 f.h.


miðvikudagur, júlí 07, 2004  

Ætlaði að skreppa í flugtúr í dag með Einari vini mínum. ég reikna þó ekki með því að nokkuð verði úr því enda er veðrið afleitt.

Á morgun klukkan eitt ætlar bangsapabbi að leggja af stað norður til Siglufjarðar þar sem haldið verður upp á tíu ára grunnskólaafmæli hans og bekkjarsystkyna hans. Fararskjótinn verður bíllinn hans Sibba en Sibbi verður jafnframt ferðafélagi. Ríkir mikil lithlökkun vegna þessa enda langt síðan sumir hittust úr umræddum hópi.

Talandi um Sibba!
Hann er að fara að gifta sig eftir mánuð. Áður en hann giftir sig verður hann steggjaður. Bangsapabbi á harma að hefna!

posted by Hjalti | 10:13 f.h.


mánudagur, júlí 05, 2004  

klukkutími, dagur, mánuður eða hálft ár milli blogga! Hver er munurinn? Nei, annars, ég viðurkenni það fúslega að þetta er slöpp frammistaða.

Frá síðustu færslu hefur ýmislegt gerst hjá honum bangsapabba. Það merkilegasta er náttúrulega það að hann er orðinn giftur maður. Hann á einmitt mánaðarbrúðkaupsafmæli í dag. Svo er hann búinn að kaupa sér íbúð, fara í brúðkaupsferð til Prag og ekki má gleyma illri meðferð sem hann mátti þola fyrir tilstuðlan vina sinna (sem hljóta að mega kallast öll dýrin í skóginum því bangsapabbi sagði einu sinni að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir) þar sem hann var meðal annars hamflettur á bakinu. það má nú alveg véfengja þessa fullyrðingu því fyrst að öll dýrin í skóginum hamflettu bangsapabba þá er nú vafasamt að segja að öll dýrin í skóginum séu vinir. Við skulum þá bara kalla þá öll dýrin í skóginum. Einnig létu öll dýrin í skóginum bangsapabba ganga um kringlunna í hlébarðaþveng og appelsínugulum netabol einum fata. Allt saman er þetta mjög vafasamt framferði og allt í hrópandi mótsögn við vinafullyrðinguna.

posted by Hjalti | 6:18 e.h.


föstudagur, nóvember 21, 2003  

Skrapp í snilldar flugtúr á þriðjudaginn við þriðja mann og flaug yfir eyju sem ég hef aldrei flogið yfir áður, Surtsey. Það var skemmtilegt að sjá hvað gróðurfarið er á allt öðru stigi þar en á eyjunum í kring. Hún var þó ekki eins ósnortin og ég var búinn að gera mér í hugarlund því allskonar rusl, baujur o.fl hefur rekið á hana. Svo lentum við á Vestmannaeyjaflugvelli og fengum okkur pönnusteiktan Lunda með trönuberjasósu. Hvílíkt og annað eins lostæti. Eftir það var haldið af stað aftur og flogið að sumarbústaðalandi við Gunnarsholt, Gullfossi, Geysi, Þingvöllum og svo haldið aftur í bæinn. Fyrir lendingu vildu farþegar þó virða fyrir sér athyglisverðan arkítektúr Smáralindar úr lofti sem var gert. Skemmtileg ferð.

posted by Hjalti | 4:35 e.h.


sunnudagur, október 12, 2003  

SnilldarX-arakvöld í gær sem lesa má um á síðunni hans Tryggva. Enginn annar en Ron Jeremy (eða einhver sem lítur nákvæmlega eins út og hann) hékk yfir okkur allan tímann á Casa Grande og reyndi að segja okkur eitthvað sem enginn skildi og söng Guantanamera þess á milli. Það eina sem skildist var þegar hann reif í Marinó og sagði við hann að hann(Marinó) væri óendanlega mikill KAPÍTALISTI því hann ætti ábyggilega svo mikla peninga. Sagði svo að hann væri "Onassis of Iceland" (ég ætla ekki að birta hér hvað mér heyrðist hann segja fyrst, það var allavega eitthvað sem hefði verið mjög vafasamt að segja).

posted by Hjalti | 1:44 e.h.


laugardagur, október 11, 2003  

Fyrir framan Alþingingishúsið, í brúðkaupi á Skúlagötu, í kofa á Sprengisandi og á skemmtistað í Havana. Þetta er bara brot af þeirri fjölbreyttu flóru staða þar sem ég hef sungið Internationalinn í gegnum tíðina en ég held að svalir framsóknarhússins slái alla þá staði út.

posted by Hjalti | 3:52 e.h.


föstudagur, október 10, 2003  

Í fyrrakvöld var nýja hringadróttinsRISKspilið mitt vígt og voru þáttakendur í þeim verknaði Ég, Siggi T, Marinó og Frissi og voru Siggi T og frú gestgjafar. Á meðan á spilinu stóð kom Einar Hafberg í heimsókn. Ég held að allir þáttakendur hafi verið sammála um að spilið sé góð útfærsla á þessari bráðskemmtilegu hugmynd sem RISK er en þess má geta að víða má leita áður en slíkir RISK-aðdáendur sem við erum finnast. Eins og venjulega, þá vann Marinó og eins og eftir flest önnur spil þá vex gildi kenningarinnar sem Jens setti fram fyrir mörgum árum síðan: "Það borgar sig aldrei að semja við Marinó".

Fyrir þá sem áhuga hafa á RISK, þá er munurinn á venjulegu RISK spilinu og LOTR-RISK þessi:
- Nokkur lönd á kortinu hafa virki sem veitir vörninni í því landi aukastig sem leggst við hærri teninginn.
- Hver leikmaður hefur eina hetju og veitir hetjan aukastig í sókn og vörn. Ef hetjan drepst, þá fær maður enga hetju aftur.
- Kortið er alltöðruvísi og þarf því að hugsa alla taktík upp á nýtt.

posted by Hjalti | 1:15 e.h.


mánudagur, október 06, 2003  

Eins og þið sjáið á færslunni fyrir neðan þá þykir mér dagurinn í dag ekkert sérlega góður. Það er ekki á málið bætandi að allir þyngstu fyrirlestrarnir eru á mánudögum og ég var að komast að því það er 15% próf eftir nokkra daga í Hagrannsóknum sem ég hafði ekki haft rænu á að komast að fyrr (varla búinn að opna bókina). Armæðu- og vonleysishugsanir eiga því auðvelt með að læðast að við slíkar hallæriskringumstæður. Rétt áðan, þegar ég sat á kamrinum í Lögbergi fékk ég þó vakningu og síðan þá er dagurinn búinn að vera miklu betri. Það er nefnilega SURVIVOR í kvöld.

posted by Hjalti | 3:58 e.h.
 

Oooohhhhh! Mánudagur. Eini kosturinn við mánudaga er að þetta getur ekki annað en farið uppávið eftir hann.

posted by Hjalti | 2:00 e.h.


laugardagur, október 04, 2003  

Er í heimildarvinnu fyrir ritgerð um skatta á Íslandi.

Vissuð þið að jaðarskattar á hjón með þrjú börn sem búa í leiguhúsnæði eru 62% á tekjubilinu 166.667 til 425.000 krónur á mánuði (samanlagðar tekjur). Ef hjónin væru t.d. með 200.000 á mánuði og myndu svo bæta á sig yfirvinnu og hækka launin upp í 250.000 á mánuði, þá myndu ráðstöfunartekjur við þetta aðeins hækka um 18.999 á mánuði eða úr 228.041 í 247.040 (barnabætur og húsaleigubætur gera það að verkum að ráðstöfunartekjur eru hærri í fyrra tilvikinu en launin). Þetta er mjög letjandi fyrir fólk. Hvatinn til að leggja á sig meiri vinnu eða vinna sig upp metorðastigan er minni en hann gæti verið.

posted by Hjalti | 2:39 e.h.


fimmtudagur, október 02, 2003  

Var að lesa fjárlagafrumvarpið. Mér líst vel á það. Sérstaklega er ég þó ánægður með að heilbrigðismálin skuli fá auknar fjárheimildir en mér þótti menn orðnir full ákafir með niðurskurðarhnífinn. Ákvæði um niðurfellingu sérstaks tekjuskatts kemur svolítið á óvart þar sem það kom ekki fram í stjórnarsáttmála. Mér þykir það þó ekki óeðlilegt þar sem hann var settur á til bráðabirgða á sínum tíma.

posted by Hjalti | 8:51 f.h.


miðvikudagur, október 01, 2003  

Var að ljúka við Þjóðhagfræðiprófið. Ekki gekk það vel. Þetta voru bara krossar og margar spurningar sem byggðu á hvor annari og ég var ekki klár á mjög krítískum atriðum. Þetta verður því líklega annaðhvort mjög góð einkunn eða mjög léleg. Enginn millivegur í því.

Sjóræningjabrandarinn góði:

Skip var að sigla í suðurhöfum.
Allt í einu birtist sjóræningjaskip og stefnir hratt í átt að skipinu. Skipstjórinn sem var mikið hörkutól segir við einn áhafnarmeðlimin: "Komdu með rauðu skyrtuna mína". Áhafnarmeðlimurinn gerir það og þegar skipstjórinn er nýkominn í hana, þá æða sjóræningjarnir um borð og hefst þá mikill bardagi. Skipstjórinn berst hetjulegast af öllum og innan skamms flýja sjóræningjarnir. Um kvöldið er haldin sigurhátíð og er mikið talað um hvað skipstjórinn hafi barist kröftuglega. Einn spyr hvers vegna hann hafi viljað fá rauðu skyrtuna. "Það er vegna þess að ef ég hefði særst, þá hefði ekki sést neitt blóð og þið hefðuð getað haldið áfram að berjast án þess að hafa áhyggjur af mér. Enginn átti orð til að lýsa hvílík hetja skipstjórinn var.

Næsta morgun koma aftur sjóræningjaskip, en nú er það ekki eitt og ekki tvö, heldur tíu skip. Allir líta til skipstjórans aðdáunaraugum og bíða eftir einu snilldarúrræða hans. Þá kallar hann til áhafnarinnar:
"Sækið brúnu buxurnar mínar."

posted by Hjalti | 4:09 e.h.
 

Hér koma tvær aðskildar sögur sem ættu ekki að koma hvor annari við. (Það væri allavega mikil tilviljun ef svo væri)


1.
Einn hlýjan og heiðskýran júlídag fyrir nokkrum árum var ég að fljúga frá Reykjavík til Akureyrar á flugvélinni sem fjölskyldan átti. Ég ákvað að taka krók og fljúga yfir sprengisand því þá leið hafði ég sjaldan flogið. Veðurfræðingurinn sem ég talaði við sagði einnig að þett væri líklega besti dagur ársins til að fara í útsýnisflug (Hann fékk að heyraða þegar ferðinni var lokið). Umræddur dagur var heitasti dagur sumarsins og var svo mikil uppgufun af svörtum sprengisandinum að á örfáum mínútum urðu til hárreist skúraský allstaðar í kring um mig þar sem ég var á flugi yfir miðjum sandinum og varð úr mesta þrumuveður sem ég hef orðið vitni að hér á landi. Droparnir voru svo stórir og margir að framrúðan víbraði allan tíman og allt í kring skullu niður eldingar. Þetta tók svolítið á taugarnar. Ég hélt mér undir skýjunum eins hátt og hægt var (því það hættulegasta við þrumuský er niðurstreymið sem kemur stundum niður úr þeim og þá vill maður ekki vera of nálægt jörðu) og hélt stefnunni til Akureyrar en flaug framhjá kofaþyrpingu á þeim stað þar sem rigningin var hvað mest og eldingarnar hvað tíðastar og mér til mestu furðu sá ég tvær mannverur liggjandi ofan í djúpum polli á milli kofana í kraftgöllum. Ég veit ekki afhverju en það fyrsta sem ér datt í hug var: Þetta myndi enginn annar en MARINÓ gera.


2.
Einn hlýjan og heiðskýran júlídag fyrir nokkrum árum var voru Marinó og Hilma búsett í kofa á miðjum Sprengisandi. Hitinn var ótrúlegur fyrir þennan stað og fór yfir 25 stig og ætluðu þau að nota daginn til að slappa af í sólbaði. Allt í einu fara þó að rísa upp ský og innan fimm mínútna sjá þau eldingar. Það byrjar að rigna mestu rigningu sem þau hafa upplifað. Til að gefa lesendum hugmynd um hversu mikil rigningin var þá fylltust hjólbörurnar af vatni á þremur mínútum. Þá tekur Marinó þessa bráðsnjöllu ákvörðun að klæða sig og konuna í kraftgalla og leggjast ofan í næsta poll. Þau liggja þar og fylgjast með ótrúlegu ljósasjói þegar þau heyra allt í einu flugvélahljóð. Þá segir Marinó: Þetta myndi enginn annar en HJALTI gera!

posted by Hjalti | 1:43 e.h.


þriðjudagur, september 30, 2003  

Sjóræningjabrandarinn!!!

Einn mesti snilldarbrandari sem ég hef heyrt sendi mér gamall bekkjarbróðir úr MA, Kjartan Sverrisson fyrir mörgum mánuðum síðan. Mér þótti brandarinn svo fyndinn að ég þurfti að leggja öll önnur verkefni til hliðar í amk klukkutíma á meðan ég jafnaði mig eftir ósköpin. Á flestum mannamótum sem ég sótti næstu daga á eftir vildi ég nota tækifærið og deila gleðigjafanum með öðrum en nær undantekningarlaust voru undirtektirnar mjög daprar. T.d. má nefna að tengdafjölskyldan horfði öll á mig og beið eftir pönslæninu þegar brandarinn var búinn. Mamma, pabbi og Sindri bróðir þurftu þó öll þennan sama klukkutíma til þess að jafna sig.

Ég mun birta brandaran síðar.

posted by Hjalti | 10:48 e.h.
 

Einkennilegt!
Ég hef helst tilhneygingu til að skrifa þegar ég er að fara í próf en það er einmitt 15% próf í Þjóðhagfræði 2 á morgun. Talandi um próf, þá gekk mér svona glimrandi vel í sumarprófunum en ég ákvað að taka fjóra kúrsa í sumar í stað þess að vinna. Sé ekki eftir því.

Eitt sem mér þykir svolítið fyndið: Í einum kúrsi sem ég er í er mikið fjallað um ýmsar líkindadreifingar og kennarinn hefur gríðarmikla tilhneygingu til að fjalla um rússneska rúllettu til útskýringar. Fyrsta dæmið var bara eðlilegt, því þá dreifingu má nota til að finna lífslíkur í rússneskri rúllettu. En síðan bætti hann við þáttum til að útskýra flestar aðrar dreifingar og síðasta dæmið sem hann tók var sveitakeppni í rússneskri rúllettu með vélbyssum þar sem gikknum er haldið inni og tíminn þar til skotið hleypur af í hverju tilviki fyrir sig mældur.

Skrapp í stuttan sunnudagsflugtúr í fyrradag og skoðaði m.a. almannagjá við Þingvelli. Þvílík snilld!

posted by Hjalti | 1:00 e.h.
archives
links